Fótbolti

Lið sem KR sló út úr Evrópudeildinni 2011 gjaldþrota vegna kórónuveirufaraldursins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Framtíð Žilina er óráðin.
Framtíð Žilina er óráðin. vísir/getty

Žilina, sem hefur sjö sinnum orðið meistari í Slóvakíu, er gjaldþrota. Það ku vera fyrsta fótboltafélagið sem verður gjaldþrota vegna áhrifa kórónuveirunnar.

Nokkrir leikmenn Žilina neituðu að taka á sig launalækkun og því ákvað eigandi félagsins að lýsa yfir gjaldþroti. Flestir leikmenn Žilina munu væntanlega yfirgefa félagið á frjálsri sölu.

Žilina hefur þó ekki dregið félagið úr keppni í slóvakísku úrvalsdeildinni og það mun leika í henni þegar, eða ef, tímabilið hefst aftur.

Žilina hefur verið fastagestur í Evrópukeppnum undanfarin ár. Árið 2011 sló KR Žilina úr leik í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar, 3-2 samanlagt. 

KR-ingar unnu fyrri leikinn á heimavelli, 3-0, með mörkum Bjarna Guðjónssonar, Viktors Bjarka Arnarssonar og Kjartan Henrys Finnbogasonar. Žilina vann seinni leikinn í Slóvakíu, 2-0, en það dugði ekki til. Markvörður Žilina á þessum tíma var Martin Dúbravka sem er í dag aðalmarkvörður Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni.

Tímabilið 2010-11 tók Žilina þátt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Liðið var með Chelsea, Marseille og Spartak Moskvu í riðli og tapaði öllum sex leikjum sínum með markatölunni 3-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×