Innlent

Félagsmálaráðuneytið styður Hjálparsímann vegna mikils álags

Sylvía Hall skrifar
Hjálparsíminn 1717 og netspjallið 1717.is er opið allan sólarhringinn.
Hjálparsíminn 1717 og netspjallið 1717.is er opið allan sólarhringinn. Vísir

Félagsmálaráðuneytið mun styðja við Hjálparsímaþjónustu Rauða krossins 1717 og netspjallið vegna mikils álags undanfarið. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segist vona að samstarfið tryggi það að viðkvæmir hópar fái nauðsynlegan stuðning og þjónustu.

Hjálparsíminn 1717 og netspjallið 1717.is er opið allan sólarhringinn þar sem þjálfaðir sjálfboðaliðar svara símtölum og spurningum sem berast. Með stuðningi félagsmálaráðuneytisins verður Hjálparsíminn tengdur öðrum aðilum sem veita viðkvæmum hópum þjónustu og ráðgjöf. Starfsfólk Hjálparsímans mun leitast við að greina aðstæður þeirra sem hafa samband, veita þeim stuðning og vísa þeim á fagaðila sem gætu boðið frekari aðstoð.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, segir Rauða krossinn þakklátan fyrir stuðninginn. Með þessu geti Rauði krossinn sinnt hlutverki sínu enn betur.

„Það hefur verið gríðarleg aukning í samtölum sem okkur berast síðastliðnar vikur og við höfum fjölgað mjög þeim sem svara í símann. Sjálfboðaliðar hafa brugðist vel við og eru ómetanlegir fyrir okkar starf.“

Í fréttatilkynningu segir að stuðningurinn muni efla Hjálparsímann og netspjallið í að sinna meðal annars fjölskyldum, börnum og ungmennum, fötluðu fólki, öldruðum og fólki af erlendum uppruna á þeim fordæmalausu tímum sem nú eru uppi vegna COVID-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×