Innlent

Vetrinum ekki alveg lokið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Búast má við norðanhríð aðfaranótt miðvikudags.
Búast má við norðanhríð aðfaranótt miðvikudags. Vísir/Vilhelm

Það lægir víðast hvar á landinu þegar líður á daginn og dregur úr éljum vestanlands fyrir hádegi en síðdegis snýst í norðlæga átt með dálitlum éljum á norðanverðu landinu, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Í nótt verður víða hægviðri og léttskýjað og því gæti frost farið undir tíu stig allvíða. Á morgun hlýnar talsvert í vestanátt og gæti hiti náð allt að átta stigum.

„Áframhaldandi vestanátt á sunnudag og mánudag með rigningu eða súld en síðan er útlit fyrir norðan hríð aðfaranótt miðvikudags og mun kaldari loftmassa yfir landinu. Vetrinum er því ekki alveg lokið þó apríl sé á næsta leiti,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Vestan 8-13 og þykknar smám saman upp með lítilsháttar súld eða rigningu vestantil annars þurrt að kalla. Hlýnar í veðri og hiti víða yfir frostmarki um kvöldið.

Á sunnudag:

Vestan 8-15 og skýjað með köflum og lítilsháttar súld vestantil annars úrkomulítið. Hiti 2 til 7 stig, hlýjast S-lands.

Á mánudag:

Stíf vestanátt með súld eða rigningu vestantil, einkum síðdegis. Þurrt að kalla A-lands. Áfram milt.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir hægari vestlæga átt og rigningu eða súld vestanlands. Snýst í norðlæga átt með snjókomu eða éljum við norðurströndina um kvöldið. Hiti um og undir frostmarki norðantil en frostlaust syðra.

Á miðvikudag:

Norðlæg átt. Él norðantil en bjart með köflum um landið sunnan og vestanvert. Kólnar í veðri.

Á fimmtudag:

Útlit fyrir norðanátt og él norðantil og talsvert frost víðast hvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×