Innlent

1250 pinnar til, tvö þúsund væntanlegir og hafa ekki gefið upp alla von með Össurar-pinnana

Birgir Olgeirsson skrifar
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir veiru- og sýklafræðideildar Landspítalans.
Einar Árnason

1.250 sýnatökupinnar voru til hér á landi í morgun. Þetta leiddi stöðufundur Veirufræðideildar Háskólans Íslands í ljós í morgun. 2.000 pinnar eru væntanlegir í dag.

Þetta segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir veiru- og sýklafræðideildar Landspítalans, í samtali við Vísi.

Pinnarnir 2.000 sem eru væntanlegir í dag koma erlendis frá. Þeir eru komnir til birgja hér á landi og á nú eftir að koma þeim á viðeigandi staði.

Karl segir í samtali við Vísi að fleiri pinnar gætu komið erlendis frá í lok vikunnar.

Þá á stoðtækjaframleiðandinn Össur um það bil 20.000 sýnatökupinna til annarra nota á lager og stendur nú yfir gæðaúttekt á þeim pinnum hjá veirufræðideildinni til að sjá hvort þeir séu nægjanlega góðir til að prófa yfir kórónuveirunni. Karl segir að niðurstaðan sem fékkst úr gæðaúttektinni í gær hafi ekki verið fullnægjandi að hans mati.

„Við erum að athuga þá betur með annarri aðferð í dag,“ segir Karl.

Eru þessir pinnar því notaðir til að taka sýni samhliða þeim veirupinnum sem hingað til hafa verið notaðir. Verða niðurstöðurnar svo bornar saman til að athuga hvort að pinnarnir frá Össuri gefi sömu niðurstöðu og þar með jafn áreiðanlegir.

Sýnin verða tekin á tveimur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu en þau verða síðan rannsökuð af veirufræðideildinni, á Landspítalanum og hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Niðurstaðan ætti síðan að liggja fyrir síðar í dag að sögn Karls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×