Körfubolti

Handhafi stoðsendingametsins á Íslandi lést úr COVID-19

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd af David Edwards á Twittersíðu Texas A&M skólans.
Mynd af David Edwards á Twittersíðu Texas A&M skólans. Mynd/@aggiembk

David Edwards, fyrrum leikmaður KR í úrvalsdeild karla í körfubolta, er látinn eftir að hafa fengið COVID-19 sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur.

David Edwards lést heima hjá sér í New York á mánudaginn. Hann fæddist í desember 1971 og var 48 ára gamall.

David Edwards lék með KR á 1996-97 tímabilinu en hann var líka fyrrum leikmaður Texas A&M háskólans þar sem hann á mörg skólamet.

Fulltrúi Texas A&M skólans staðfesti fréttirnar við blaðamann Dallas Morning News.

David Edwards setti stoðsendingamet með KR þetta tímabil hans á Íslandi fyrir meira en tuttugu árum þegar hann gaf 18 stoðsendingar í leik á móti ÍR á Seltjarnarnesinu. Enginn annar leikmaður hefur náð að gefa 18 stoðsendingar í einum deildarleik í úrvalsdeild karla og stendur metið því enn.

Pavel Ermolinskij komst nálægt því fyrr í vetur þegar hann gaf 17 stoðsendingar í sigri Vals á Fjölni.

David Edwards hóf háskólaferill sinn með Georgetown tímabilið 1989-90 en skipti svo yfir í Texas A&M þar sem hann var með 13,5 stig, 4,9 fráköst og 7,1 stosðendingu að meðaltali í leik á þremur árum.

Hann gaf meðal annars 265 stoðsendingar á einu tímabili sem er enn félagsmet hjá Texas A&M. Hann er líka sá leikmaður sem hefur gefið flestar stoðsendingar (602) og stolið flestum boltum (228) í sögu Texas A&M skólans.

David Edwards lék bara átta leiki með KR-liðinu tímabilið 1996-97 og var með 20,8 stig, 10,4 stoðsendingar og 4,3 stolna bolta að meðaltali í þeim. Hann yfirgaf félagið um áramótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×