Seðlabankinn ætlar í fyrsta skipti að kaupa ríkisskuldabréf fyrir allt að 150 milljarða króna á þessu ári með peningaprentun og án þess að ganga á gjaldeyrisforðann. Seðlabankastjóri segir ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af verðbólgu þótt gengi krónunnar hafi sigið um tíu prósent frá áramótum.
Seðlabankinn leikur stórt hlutverk í viðbrögðum við þvíefnahagsástandi sem nú ríkir og framundan er vegna kórónuveiru faraldursins. Í morgun boðaði bankinn til síns þriðja kynningarfundar með fjölmiðlum og fjármálafyrirtækjum á jafnmörgum vikum. Á fyrri fundunum tveimur lækkaði bankinn megin vexti sína ítveimur stórum skrefum eða um eitt prósentustig samtals.

Nú segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að bankinn muni kaupa ríkisskuldabréf í stórum stíl, það er að segja, lána ríkissjóði peninga. Það verði gert meðpeningaprentun og ekki gengið á gjaldeyrisvaraforðan.
„Í ljósi þess að ríkissjóður Íslands muna þurfa aukið fjármagn til að standa skil á útgjöldum vegna Covid19 veirunnar og eins og einnig hefur komið fram hefur ríkissjóður líka veitt gjaldfresti þá er fyrirsjáanlegt að það verði meiri útgáfa,“ segir Ásgeir.
Seðlabankastjóri hefur boðað að vextir verði lækkaðir niður í allt að núll prósent ef á þurfi að halda og að bankinn eigi mörg önnur verkfæri í kistu sinni eins og fram kom meðal annars í dag. Fyrir viku aflétti bankinn einnig sveiflujöfnunarauka viðskiptabankanna sem þýddi að þeir hafa nú 60 milljarða til viðbótar til að lána út og skuldbreyta, eða samanlagt 350 milljarða á þessu ári.
„Þannig að kaup Seðlabankans á ríkisskuldabréfum eru þá ætluð til þess að tryggja framgang peningastefnunnar á markaði. Tryggja það að áhættulausir vextir hækki ekki of mikið. Tryggja það að bæði heimili og fyrirtæki geti notið lágra langtímavaxta í gegnum þetta áfall,“ sagði Ásgeir Jónsson.