Menning

Þriðji lestur á Tídægru

Tinni Sveinsson skrifar
Valur Freyr Einarsson leikari.
Valur Freyr Einarsson leikari. Borgarleikhúsið

Næst á dagskrá hjá Borgó í beinni er þriðji lestur á skemmtisögu úr Tídægru eftir hinn ítalska Giovanni Boccaccio.

Valur Freyr Einarsson leikari les í dag og hefst flutningur klukkan 12 í beinni útsendingu hér á Vísi.

Tídægra, eða Decameron, er skrifuð í kjölfar þess að plágan mikla gekk yfir Flórens árið 1348. Yfir helmingur borgarbúa hafði fallið í valinn áður en yfir lauk og á rammasaga bókarinnar sér stað í farsóttinni miðri. Hópur ungs fólks ákveður að yfirgefa Flórens og flýja í sumarhöll fyrir utan bæinn með það fyrir augum að vera í einangrun þar til sóttin réni. Til að stytta sér stundir segja þau hvert öðru sögur – tíu sögur á dag í þá tíu daga sem þau dvelja í sumarhöllinni.

Þar sem Boccaccio sjálfur upplifði pláguna þykir Tídægra í senn vera ómetanleg heimild um lífið á tímum Svarta dauða sem og safn leikandi léttra og skemmtilegra smásagna - sem þó eru ekki án brodds því höfundurinn deilir á hræsni, kirkjuna og jafnvel kúgun kvenna.

Klippa: Tídægra - þriðji lestur

Næsta útsending hjá Borgarleikhúsinu verður síðan á morgun, fimmtudag, klukkan 20. Þá verður leiklestur á leikritinu Hotel Volkswagen eftir Jón Gnarr, sem var frumsýnt í Borgarleikhúsinu í mars 2012 í leikstjórn Benedikts Erlingssonar.

Á föstudaginn klukkan 12 verða svo tónleikar með Bubba Morthens í beinni frá Stóra sviði Borgarleikhússins. Bubbi verður með vikulega tónleika á meðan á samkomubanni stendur þar sem hann mun leika nokkur af sínum bestu lögum og segja sögur um tilurð laganna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×