Innlent

Bjóða frestun á greiðslu fasteignagjalda vegna faraldursins

Eiður Þór Árnason skrifar
Með þessu vill sveitarstjórn Blönduósbæjar koma til móts við fyrirsjáanlegt tekjutap næstu mánuði.
Með þessu vill sveitarstjórn Blönduósbæjar koma til móts við fyrirsjáanlegt tekjutap næstu mánuði. vísir/vilhelm

Sveitarstjórn Blönduósbæjar hefur samþykkt að bjóða heimilum og fyrirtækjum upp á að sækja um greiðslufrest á fasteignagjöldum. Um er að ræða hluta af aðgerðum sveitarstjórnarinnar til að bregðast við efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins.

Í tilkynningu á vef bæjarins segist hún með þessu vilja koma til móts við fyrirsjáanlegt tekjutap næstu mánuði. Verður hægt að óska eftir frestun á greiðslu fasteignagjalda, sem eru á gjalddaga 1. apríl, 1. maí og 1. júní næstkomandi, um allt að sjö mánuði.

Í dag tilkynnti sveitarstjórn Húnaþings vestra einnig að næstu þrír gjalddagar fasteignagjalda verði færðir fram um fimm mánuði. Jafnframt var samþykkt að taka til endurskoðunar innheimtu gjalda, til að mynda vegna leikskóla, tónlistarskóla og frístundar, í ljósi skertrar þjónustu að undanförnu.

Sveitarstjórn Blönduósbæjar ætlar sömuleiðis að endurskoða innheimtu slíkra gjalda vegna þeirrar röskunar sem faraldurinn hefur haft á þjónustu í sveitarfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×