Erlent

Segir fangelsaða Insta­gram stjörnu vera með veiruna

Sylvía Hall skrifar
Sahar Tabar öðlaðist frægð á netinu fyrir það að hafa farið í um fimmtíu lýtaaðgerðir til þess að líkjast leikkonunni Angelinu Jolie. Hún var fangelsuð fyrir guðlast í fyrra.
Sahar Tabar öðlaðist frægð á netinu fyrir það að hafa farið í um fimmtíu lýtaaðgerðir til þess að líkjast leikkonunni Angelinu Jolie. Hún var fangelsuð fyrir guðlast í fyrra. Instagram

Lögmaður írönsku Instagram stjörnunnar Sahar Tabar segir hana hafa smitast af kórónuveirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum í kvennafangelsi í Íran. Tabar var handtekin í fyrra fyrir guðlast og að hafa hvatt til ofbeldis.

Sjá einnig: Írönsk Instagram stjarna handtekin fyrir guðlast

Tabar hefur vakið mikla athygli fyrir sérstakt útlit, en hún undirgekkst um fimmtíu lýtaaðgerðir í þeirri von um að líta meira út eins Angelina Jolie. Tabar, sem er 22 ára gömul, hefur verið kölluð uppvakningsútgáfan af Jolie en hún hefur sjálf ýjað að því að breyta útliti sínu enn frekar með förðun og tölvuvinnslu.

Yfirmaður fangelsisins hafnar því að hún hafi greinst með kórónuveiruna og segir það fjarri sannleikanum. Lögmaður hennar hefur þó skrifað opið bréf til dómstóla í landinu, sem hann birti á Instagram, og segir móður Tabar hafa fullyrt að hún væri nú í sóttkví-hluta fangelsisins eftir að hafa sýnt einkenni kórónuveirusmits.

Yfir fimm þúsund hafa látist í Íran af völdum kórónuveirunnar og var um það bil 85 þúsund föngum sleppt í því skyni að sporna við útbreiðslu veirunnar. Lögmaður Tabar segir hana ekki hafa átt möguleika á því að vera sleppt, þrátt fyrir „minniháttar glæpi“, þar sem mál hennar væri enn til meðferðar í kerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×