Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað á aukafundi í gær að bankinn myndi hefja bein kaup á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði.
Þetta er gert til að bankinn geti gert sitt til að lausara taumhald á peningastefnunni, í ljósi kórónuveirufaraldursins, miðlist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja.
Í yfirlýsingu frá nefndinni sem barst í morgun segir að horfur séu á því að útbreiðsla veirunnar, aðgerðir til að hefta sjúkdóminn og efnahagslegar afleiðingar hans, muni kalla á verulega aukningu útgjalda ríkissjóðs.
Því sé útlit fyrir að afkoma ríkissjóðs versni í ár og að ríkið þurfi að afla sér töluverðs lánsfjár með útgáfu ríkisbréfa.
Að sögn peningastefnunefndar mun þetta, að öðru óbreyttu, draga lausafé úr umferð og þrýsta upp ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa á sama tíma og aðgerðir Seðlabankans miði að því að létta á fjármálalegum skilyrðum heimila og fyrirtækja. Fyrrnefndar aðgerðir, bein kaup á skuldabréfum, eiga að draga úr þessum áhrifum.