Innlent

Meira en þriðjungur hefur breytt vinnufyrirkomulagi sínu

Kjartan Kjartansson skrifar
Það voru fáir á ferli á Suðurlandsbrautinni á fyrsta degi samkomubannsins á mánudag. Margir hafa breytt vinnufyrirkomulagi sínu vegna kórónuveirufaraldursins.
Það voru fáir á ferli á Suðurlandsbrautinni á fyrsta degi samkomubannsins á mánudag. Margir hafa breytt vinnufyrirkomulagi sínu vegna kórónuveirufaraldursins. Vísir/Vilhelm

Kórónuveirufaraldurinn hefur leitt til þess að meira en þriðjungur landsmanna vinnur nú heima hjá sér að einhverju eða öllu leyti ef marka má nýja könnun MMR. Yngra fólk og sérfræðingar voru líklegri en aðrir til þess að vinna heima.

Mörg fyrirtæki og stofnanir hafa beðið starfsfólk sem hefur kost á því að vinna heima hjá sér til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19-sjúkdómnum.

Af svarendum í könnun MMR sögðust 39% starfa við breytt vinnufyrirkomulag þessa dagana vegna faraldursins. Tæpur fjórðungur allra svarenda sagðist vinna heima að hluta til og 15% sögðust eingöngu vinna heima.

Svarendur á aldrinum 30-49 ára (33%) reyndust líklegastir allra aldurshópa til að segjast vinna að hluta til að heiman þessa dagana en svarendur 18-29 ára (23%) og 68 ára og eldri (19%) reyndust líklegastir til að segjast eingöngu vinna að heiman.

Nokkurn mun var að sjá á vinnufyrirkomulagi eftir starfsgreinum en sérfræðingar reyndust líklegri en aðrir svarendur til segjast að vinna að hluta til (45%) eða að öllu leyti (19%) að heiman þessa dagana.

Stuðningsfólk Vinstri grænna (42%) reyndist líklegast til að segjast vinna að hluta til að heiman og stuðningsfólk Vinstri-grænna (17%) og Pírata (17%) reyndist líklegast til að segjast eingöngu vinna að heiman þessa dagana. Stuðningsfólk Framsóknar (78%), Miðflokks (69%) og Sjálfstæðisflokks (65%) reyndist hins vegar líklegast til að segja vinnufyrirkomulag sitt með óbreyttum hætti þessa dagana.

Könnunin var gerð dagana 18.-20. mars. Samkomubann sem hefur sett starfsemi skóla úr skorðum tók gildi mánudaginn 16. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×