Leiksýningin Níu Líf var frumsýnd á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu á föstudeginum fyrir viku og var troðfullt út úr húsi, en samkomubann hófst síðan þremur dögum síðar.
Verkið fjallar um ævi tónlistarmannsins Bubba Morthens sem hefur verið samofinn þjóðarsálinni í öllum sínum birtingarmyndum. Verkinu er skipt upp í nokkra kafla.
Stjarnan sem rís úr slorinu; fyrst sem málsvari verkalýðsins, svo alþýðusöngvari þjóðarinnar, þá atómpönkari og gúanórokkari sem breytist í ballöðu-poppara sem syngur með stórsveitum. Skoðanaglaði gasprarinn, skrifblinda ljóðskáldið, fíkilinn sem reis upp, kvennamaðurinn og sá sem elskar aðeins eina konu, Kúbverjinn og Hollywood-víkingurinn, veiðimaðurinn, friðarsinninn og boxarinn.