Romelu Lukaku, sem gekk í raðir Inter frá Man. United í sumar, segir að hann hafi ekki haft orkuna til að vera áfram hjá félaginu þrátt fyrir að Ole Gunnar Solskjær, stjóri liðsins, hafi viljað halda honum.
Lukaku gekk í raðir Inter í ágúst eftir að hafa verið í tvö ár á Old Trafford en oft á tíðum, sér í lagi á öðru tímabilinu, fékk hann mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína.
Solskjær sagði í september að það hafi verið rétt ákvörðun að láta Lukaku fara því þá myndi skapast fleiri og betri tækifæri fyrir ungstirnið Mason Greenwood. Lukaku var í viðtali á YouTube við Ian Wright.
„Það geta allir átt eitt slakt tímabil á ferlinum. Þetta var bara búið hjá okkur. Þú veist hvað gerðist á bakvið tjöldin. Þetta var bara búið,“ sagði Lukaku áður en hann hélt áfram:
Romelu Lukaku dey talk about Solskjaer and Man United in new interview. #MUFC #MUIP [Ian Wright] pic.twitter.com/q5QLTQtpMt
— Man United in Pidgin (@ManUtdInPidgin) March 19, 2020
„Þetta var erfið staða því ég sjálfur þurfti að taka ákvörðun hvert ég ætti að fara og hvar ég gæti haldið áfram að þróa leik minn. Ég vildi fara í lið þar sem liðið vildi einnig vinna með mér.“
„Ole vildi halda mér en ég sagði honum að þetta væri búið. Ég hafði ekki orkuna. Hann á mikið hrós skilið því hann er alvöru maður og hjálpaði mér að komast í burtu,“ sagði Belginn.
Lukaku hefur fundið sig vel á Ítalíu. Þar hefur hann skorað sautján mörk í 25 deildarleikjum fyrir Inter sem er í 3. sæti deildarinnar en deildin er sem kunnugt er í pásu vegna kórónuveirunnar.