Fótbolti

Þurftu að taka pulsuna af Laugardalsvelli í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá þegar var unnið við það að taka hitatjaldið af Laugardalsvellinum í dag. Græna grasið blasir við.
Hér má sjá þegar var unnið við það að taka hitatjaldið af Laugardalsvellinum í dag. Græna grasið blasir við. Vísir/Egill

Græna grasið á Laugardalsvellinum blasir nú við þeim sem ganga fram hjá vellinum í Laugardalnum.

Hitatjaldið, sem hefur verið yfir vellinum síðustu vikurnar, var tekið af vellinum nú seinni partinn.

Henry Birgir Gunnarsson og Kjartan Atli Kjartansson sögðu frá þessu í þætti sínum Sportið í dag á Stöð 2 Sport.

Pulsan átti að vera yfir vellinum fram að leik Íslands og Rúmeníu í umspili EM sem átti að fara fram 26. mars næstkomandi eða eftir eina viku.

Umspilinu var frestað fram í júní og hitatjaldið var því til einskis á vellinum. Mikil vinna var lögð í að gera völlinn tilbúinn og þá hefur Knattspyrnusamband Íslands eytt tugum milljóna í verkefnið.

Vegna slæmrar veðurspár á morgun var tekin ákvörðun um að taka hitatjaldið af í dag.

Nú er bara að vona að grasið á Laugardalsvellinum lifi það af að vera undir beru lofti næstu daga og vikur. Það er enn vetur á Íslandi og frostið getur farið illa með grasið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×