Erlent

Bretar stefna á strangar reglur um óhollustu í verslunum 2022

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bresk stjórnvöld vilja meina að tilboð á óhollustu spari fólki ekki peninga, heldur leiði til þess að það kaupir meira.
Bresk stjórnvöld vilja meina að tilboð á óhollustu spari fólki ekki peninga, heldur leiði til þess að það kaupir meira.

Bresk stjórnvöld hyggjast banna matvöruverslunum að staðsetja óhollar matvörur og drykk við afgreiðslukassa. Þá hyggjast þau einnig banna verslunum að selja þau í svokölluðum „tveir fyrir einn“ tilboðum.

Fyrrnefndar reglur munu ekki eingöngu gilda um afgreiðslukassa heldur einnig aðrar „söluvænlegar“ staðsetningar í verslunum, til dæmis við innganga og við enda hilluganga.

Þá munu svipaðar reglur gilda um vefsíður, þar sem óhollustu auglýsingatenglar verða bannaðir á forsíðum vefsvæða og greiðslusíðum. Veitingastöðum verður einnig bannað að auglýsa fría áfyllingu gosdrykkja.

Umrædd bönn munu ekki taka gildi fyrr en í apríl 2022, að undangengnu samráðsferli.

Þau munu hins vegar einnig fela í sér takmarkanir á magntilboðum á sykruðum matvörum og drykkjum og þá verður uppstillingasvæði óhollustu takmarkað við 185 fermetra.

Reglurnar gilda eingöngu fyrir stórar matvöruverslanir, þar sem starfsmenn eru fleiri en 50.

Til að rökstyðja ákvörðun sína hafa stjórnvöld meðal annars vísað til þess að í stað þess að spara fólki peninga, leiði tilboð á óhollustu hreinlega til þess að fólk kaupir meira.

Hópar sem berjast gegn offitu hafa tekið tillögunum fagnandi og samtökin Action on Sugar hafa meðal annars skorað á ráðamenn að standast þrýsting frá matvælaiðnaðinum. Þá segir talsmaður regnhlífasamtakanna Obesity Health Alliance verslanir hafa nægan tíma til að grípa til ráðstafana. 

Guardian sagði frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×