Innlent

Ekki stórir kassar en sögulegir, segir heilbrigðisráðherra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Ég er með fiðrildi í maganum, ég er svo spennt,“ sagði ráðherrann þegar bóluefnið kom í hús.
„Ég er með fiðrildi í maganum, ég er svo spennt,“ sagði ráðherrann þegar bóluefnið kom í hús. Vísir/Vilhelm

„Þetta er stór dagur hjá okkur öllum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, þegar 10 þúsund skammtar af bólefni Pfizer og BioNTech komu í hús hjá Distica rétt í þessu.

Svandís sagði samstöðu þjóðarinnar, Norðurlandanna og Evrópuþjóðanna að þakka að bólusetning væri í þann mund að hefjast hér á landi. Íslendingar væru lánsamir að hafa átt í breiðu og góðu samstarfi við aðrar þjóðir og þannig tryggt sér fleiri skammta en þörf væri á.

Umframskammtar færu til þurfandi þjóða ef til þess kæmi.

Svandís benti á að bóluefnið frá Pfizer væri það eina sem hefði fengið leyfi í Evrópu, enn sem komið er, en margt myndi skýrast á næstu dögum og vikum. 50 þúsund skammtar væru væntanlegir fram í mars.

Þá greindi hún frá því að samningur við Moderna yrði undirritaður 30. desember og leyfi væri væntanlegt í janúar. Þá væri leyfi fyrir bóluefnið frá AstraZeneca einnig handan við hornið.

„Ég legg til að við höldum brosinu á andlitinu sem allra lengst og munum hverju er um að þakka; það er samstöðunni, samstarfinu og alveg ótrúlegu úthaldi, þolgæði og bjarsýni sem við höfum búið að allan þennan faraldur og allt þetta ár.

Og megi þessi bólusetning sem er að hefjast á morgun vera fyrirboði um árið 2021; árið sem við náum undirtökunum í baráttunni við Covid-19.“

Eftir athöfnina í húsakynnum Distica sagði Svandís í samtali við Vísi að þótt kassarnir væru ekki stórir væru þeir sögulegir.

Stutt væri í að upplýsingar fengjust um hversu mikið af bóluefnum Moderna og AstraZeneca Íslendingar fengju.


Tengdar fréttir

Bein útsending: Bóluefnið afhent

Íslensk heilbrigðisyfirvöld taka á móti fyrsti skömmtunum af bóluefni Pfizer og BioNTech með formlegum hætti klukkan 10.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×