Erlent

Minnst tíu látnir eftir snjóflóð í Alborz-fjöllum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Alborz-fjöll í Íran eru vinsælt útivistasvæði.
Alborz-fjöll í Íran eru vinsælt útivistasvæði. Getty

Minnst tíu fjallaklifrarar eru látnir eftir að hafa lent í snjóflóði í Alborz-fjöllum í Íran. Fregnir herma að minnst sjö til viðbótar sé enn saknað eftir að snjóflóð féllu í kjölfar snjóstorms í Albroz-fjöllum norður af Tehran, höfuðborg Írans.

Guardian segir frá og vitnar í umfjöllun íranskra fjölmiðla frá því í gær en síðan á föstudag hefur nokkurra fjallagarpa verið saknað en þá hafði verið tilkynnt um andlát tveggja. Síðan þá hefur fjöldi látinna og þeirra sem saknað er farið upp á við og hafa fjölskyldur þeirra haft samband við yfirvöld til að óska eftir aðstoð.

Af þeim tíu sem staðfest hefur verið að séu látnir létust níu í fjallinu og einn á sjúkrahúsi eftir að hafa verið bjargað. Líkt og áður segir er að minnsta kosti sjö til viðbótar enn saknað sem voru á ferð á þremur vinsælum gönguleiðum í fjallinu að því er haft er eftir Mehdi Valipour, yfirmanni neyðaraðgerða hjá Rauða krossinum í Íran.

Leit var hætt í nótt en átti að hefjast að nýju í morgun. Vont veður og erfiðar aðstæður í fjallinu gera aðstæður til leitar afar erfiðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×