Viðskipti innlent

IKEA skiptir versluninni í sex hólf vegna sam­komu­bannsins

Atli Ísleifsson skrifar
Starfsfólk IKEA mun tryggja að ekki séu fleiri en hundrað manns í hverju hólfi á hverjum tíma.
Starfsfólk IKEA mun tryggja að ekki séu fleiri en hundrað manns í hverju hólfi á hverjum tíma. Vísir/Vilhelm

Verslun IKEA í Kauptúni hefur verið skipt í sex hólf sem viðbrögð við samkomubanni yfirvalda. Er ætlunin að tryggja að að hámarki hundrað manns séu í hverju hólfi á hverjum tíma.

Þetta segir Stefán R. Dagsson framkvæmdastjóri í samtali við fréttastofu. Hann segir að IKEA hafi gripið til fjölmargra ráðstafana vegna samkomubannsins og vilji leggja sitt á vogarskálarnar við að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

Margir hafa velt fyrir sér framkvæmd samkomubannsins í verslunum þar sem tryggja skal að færri en 100 séu samankomnir. Sömuleiðis skal skipuleggja rými þannig að hægt sé að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli einstaklinga.

Sjöunda hólfið

Stefán segir að bæði neðri og efri hluti verslunarinnar hafi verið skipt í tvö hólf og þá sé veitingasvæðið og lagerinn sömuleiðis skilgreind sem sérstök hólf. Einnig er baksvæði fyrir starfsmenn skilgreint sem sjöunda hólfið.

Hann segir að til að byrja með verði talið inn og út úr versluninni og sömuleiðis verði starfsmenn látnir fylgjast með að fjöldi fólks í hverju hólfi fyrir sig verði ekki meiri en hundrað á hverjum tíma. Verklag verði breytt þyki ástæða til.

Gulu pokarnir teknir úr umferð

Stefán segir að gulu pokarnir, sem nýtast jafnan viðskiptavinum við að safna saman vörum, hafi verið teknir úr umferð. Handföng á innkaupakerrum verði sótthreinsaðar og þá hefur borðum á veitingasvæðinu verið fækkað til að tryggja fjarlægð milli hópa.

Einhverjir starfsmenn IKEA hafa verið sendir heim til að vinna þaðan eins og hægt er og þá hafa breytingar verið gerðar á aðstöðu starfsmanna í verslun til að tryggja að farið sé að fyrirmælum yfirvalda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×