Danir lóguðu öllum minkum á minkabúum landsins í haust eftir að afbrigði kórónuveirunnar kom upp í minkum sem smitaðist yfir í menn. Alls var um fimmtán milljónum dýra lógað.
Ætlunin er að grafa upp um fjóra milljónir minka í kjölfar kvartana frá íbúum sem búa í grennd við umræddar grafir eftir að stór hluti hræjanna hafði leitað upp á yfirborðið. Sögðu íbúarnir að hræin ógnuðu heilsu nálægra íbúa.
Loðdýrarækt hefur verið umfangsmikil í Danmörku og er landið fjórði stærsti útflytjandi loðdýrafelda í heimi.
Grafirnar sem um ræðir eru að finna á svæði danska hersins í vesturhluta landsins. Hræin fóru fljótlega að leita upp á yfirborðið vegna gasmyndunar sem varð í rotnunarferlinu sem varð til þess að hræin þrýstust upp á við.
Yfirvöld hafa sagt enga hættu á að kórónuveiran geti leitað úr hræjunum í gröfunum, en nágrannar hafa hins vegar varað við hættu á að hræin geti mengað drykkjarvatn íbúa og sömuleiðis nálægt stöðuvatn.
Stendur til að brenna umrædd hræ eftir að þau hafa verið grafin upp.