Frá þessu segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef veðurstofunnar. Hiti verður á bilinu 0 til 8 stig þar sem mildast verður syðst á landinu.
„Veðrið breytist lítið á morgun, ákveðin norðaustanátt og úrkoman mest við austurströndina.
Heldur kólnandi veður og á föstudag er spáð slyddu eða snjókomu á norðanverðu landinu, en áfram talsverðri rigningu austast.“
Mikið hefur rignt á Austfjörðum síðustu daga, en akmannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir hættustigi vegna skriðuhættu á Seyðisfirði og óvissustigi á Austurlandi. Búið er að rýma um fimmtíu hús undir Botnabrún á Seðisfirði eftir að skriður féllu úr hlíðinni síðdegis í gær.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Norðaustanátt, víða 8-15 m/s. Þurrt á S- og V-landi, annars rigning eða slydda með köflum, einkum A-lands en dálítil snjókoma í innsveitum. Hiti yfirleitt á bilinu 0 til 5 stig.
Á föstudag: Norðaustan 10-18 með slyddu eða snjókomu N- og A-lands, en talsverðri rigningu á Austfjörðum. Hiti 1 til 6 stig sunnan heiða, en nálægt frostmarki N-til á landinu.
Á laugardag: Norðlæg átt með slyddu eða snjókomu og rigningu austast, en yfirleitt þurrt S- og V-lands. Hiti kringum frostmark.
Á sunnudag og mánudag (vetrarsólstöður): Norðaustanátt með snjókomu og síðar éljum um landið norðan- og austanvert. Kólnandi veður.
Á þriðjudag: Norðlæg eða breytileg átt og sums staðar él.