Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar, segir að starfsmenn hafi átt fullt í fangi með að reyna að koma í veg fyrir slík brot.
„Starfsmenn hafa verið að biðja fólk að virða tilmæli um fjöldatakmarkanir og hversu margir eru skráðir á hvern pott og hversu margir mega vera en annað hvort hlustar fólk ekki eða er með derring,“ segir Anna Kristín í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hún segir að engar raðir hafi myndast fyrir utan laugina frá því að hún hafi verið opnuð á fimmtudaginn síðastliðinn en þá höfðu sundlaugar verið lokaðar frá 7. október.
„Við erum í raun ekki að nýta þessi 50 prósent sem við megum vera með. Engu að síður er einhver vegin troðningur í pottum og það var nú bara núna í vikunni sem Sundhöllin þurfti að minnka við sig og mega ekki lengur taka á móti 50 prósent nýtingu þar sem var í raun troðningur í pottum.“
Hátíðirnar sem eru við það að skella á eru mikill sundtími og segir Anna að brugðist verði með því með lengri opnunartíma.
„Venjulega hefur verið opið frá átt til eitt á aðfangadag og gamlársdag og það eru miklir sunddagar. Við höfum ákveðið að opna fyrr þá daga, við opnum klukkan 6:30 þá daga. Eins verða í fyrsta skipti núna allar sundlaugar opnar annan í jólum og á nýársdag en venjan hefur veri að hafa bara nokkrar opnar á þeim dögum,“ segir Anna Kristín.