Fótbolti

Stefán Teitur lagði upp í Ís­lendinga­slag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefán Teitur í leik með íslenska U21 árs landsliðinu.
Stefán Teitur í leik með íslenska U21 árs landsliðinu. Vísir/Bára

Silkeborg lagði Fredericia í dönsku B-deildinni í dag en tveir íslenskir unglingalandsliðsmenn komu við sögu í leiknum. Stefán Teitur Þórðarson lagði upp síðara marka Silkeborg í 2-0 sigri á meðan Elías Rafn Ólafsson ver mark Fredericia.

Elías Rafn – sem er á láni frá meisturum Midtjylland – er byrjunarliðsmarkvörður Fredericia á meðan Stefán Teitur er enn að vinna sig inn í lið Silkeborg eftir að hafa gengið til liðs við félagið frá ÍA í sumar.

Hann varð svo fyrir því óláni að fá kórónuveiruna í október og hefur því mögulega ekki náð að sýna sínar bestu hliðar í Danmörku. Stefán nýtti þó svo sannarlega mínúturnar sem hann fékk í dag.

Hann kom inn af varamannabekk Silkeborg á 81. mínútu og var búinn að leggja upp síðara mark liðsins aðeins mínútu síðara.

Lokatölur 2-0 sem þýðir að Silkeborg er í 3. sæti, fjórum stigum á eftir Íslendingaliði Esbjerg þar sem Ólafur Kristjánsson er við stjórnvölin og Andri Rúnar Bjarnason leikur. Fredericia er svo í 4. sætinu, tveimur stigum á eftir Silkeborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×