Erlent

Hættu við tilraunaskot á síðustu stundu

Samúel Karl Ólason skrifar
Á þessu skjáskoti má sjá að niðurtalningin var stöðvuð þegar einungis rétt rúm sekúnda var í geimskotið.
Á þessu skjáskoti má sjá að niðurtalningin var stöðvuð þegar einungis rétt rúm sekúnda var í geimskotið. AP/SpaceX

Hætt var við tilraunaskot nýs geimfars fyrirtækisins SpaceX á síðustu stundu í gær. Sjálfvirkur skynjari í einni af eldflaugum geimskipsins stöðvaði geimskotið einungis rúmri sekúndu áður en það átti að hefjast. 

Markmiðið var að skjóta Starship SN8 í rúmlega tólf kílómetra hæð og lenda því aftur.

Litlar sem engar upplýsingar hafa borist frá fyrirtækinu um hvað olli því að hætt var við tilraunaskotið né hvort það standi til að reyna aftur og þá hvenær, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu sagt að mögulega gæti tilraunaskotinu verið frestað til dagsins í dag eða jafnvel á morgun en ekki er búið að gefa út hvort til standi að reyna aftur í þessum skotglugga.

Sjá einnig: Ætla að skjóta stærðarinnar geim­skipi í tólf kíló­metra hæð og lenda því aftur

SN8 er um 50 metra hátt og er stærsta frumgerð Starship sem starfsmenn SpaceX hafa byggt hingað til.

Í byrjun sumars tilkynnti Musk að þróun Starship væri í forgangi hjá fyrirtækinu. Það var skömmu eftir að fyrirtækið náði þeim áfanga að byrja að skjóta mönnum út í geim frá Bandaríkjunum í fyrsta sinn frá árinu 2011.

Starship er ætlað að að flytja allt að hundrað menn og birgðir til tunglsins og jafnvel til mars.


Tengdar fréttir

SpaceX með stöðuga viðveru í geimnum næstu mánuði

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) hefur gefið fyrirtækinu SpaceX grænt ljós á að senda geimfara til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar (ISS) á laugardagskvöldið. Þá varð fyrirtækið í gær það fyrsta til að fá vottun NASA til mannaðra geimferða.

Starship flogið á loft og lent aftur

Starfsmönnum fyrirtækisins SpaceX tókst í gærkvöldi að fljúga frumgerð að Starship geimfarinu á loft og lenda því aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×