Verslun IKEA hefur staðið lokuð síðan 31. október. Ekki þótti stætt á því að hafa búðina opna þegar aðeins máttu tíu viðskiptavinir vera þar inni í einu.
Á fimmtudag taka hins vegar gildi rýmri sóttvarnareglur sem sérstaklega snúa að verslunum. Þannig mega allar verslanir taka á móti fimm viðskiptavinum á hverja tíu fermetra, mest hundrað manns. Ætla má að IKEA nýti sér þær takmarkanir til fulls en verslunin er alls 22.500 fermetrar að stærð.
Stefán Rúnar Dagsson framkvæmdastjóri IKEA sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að ef sóttvarnareglur yrðu ekki rýmkaðar á fimmtudag, þannig að hægt yrði að opna verslunina á ný, væri jólasalan ónýt þetta árið. Hann kvað starfsfólk jafnframt myndu leggja allt í sölurnar til að opna aftur, fengist heimild til þess.