Hannes segir að tilfinningarnar tengdar fréttunum um að bara leikmenn í efstu deildum körfuboltans fái að æfa séu blendnar.
Æfingabanni á Íslandi, sem hefur verið í gildi síðan í byrjun október, hefur nú verið aflétt fyrir það íþróttafólk sem leikur í efstu deildum. Þetta staðfesti Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra í dag.
Því fær körfuboltafólk í efstu deildum karla og kvenna að æfa en ekki annað körfuboltafólk á meistaraflokksstigi.
„Í rauninni í dag ætla ég að segja sem minnst í dag. Þetta eru blendnar tilfinningar,“ sagði Hannes í samtali við Vísi er hann var spurður út í fréttir dagsins.
„Það er númer eitt, tvö og þrjú að við fáum að æfa í efstu tveimur deildum karla og kvenna. Samkvæmt regluverki KKÍ og FIBA hanga þessar deildir saman, Domino’s deildirnar og fyrstu deildir karla og kvenna.“
„Ég hef enn trú á því að þessar deildir fái að æfa. Það skiptir ofboðslegu miklu máli. Það er nógu slæmt að önnur deildin og niður fái ekki að æfa. Við skiljum það en það skiptir meginmáli að þessar deildir fái að æfa. Við erum búin að vera vinna í því síðustu daga og munum gera það áfram.“
Hannes segir einnig að KKÍ krefjist þess að unglingar, fæddir 2004 og eldri, fái að æfa - sama hvort að lið þeirra sé í efstu deild eða ekki.
„Æfingar unglinga, fæddir 2004, 2003 og 2002, verða að komast í gang. Þessir ungu krakkar verða að fá að æfa, óháð því í hvaða deild liðin eru. Þau verða að fá að komast í íþróttahús.“
Hannes bætti því einnig við að nú væri útilokað að hefja mótahald í byrjun janúar. Stefnan væri nú að hefja mótahaldið um miðjan janúar.