Fótbolti

Jón Dagur í byrjunar­liði er AGF lagði Brönd­by

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Dagur var í byrjunarliði AGF að venju í kvöld.
Jón Dagur var í byrjunarliði AGF að venju í kvöld. Cathrin Mueller/Getty Images

AGF vann góðan 3-1 sigur á Bröndby í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Alls komu tveir íslenskir landsliðsmenn við sögu. Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði AGF á meðan Hjörtur Hermannsson kom inn af varamannabekk Bröndby í hálfleik.

Gift Links kom heimamönnum í AGF yfir á 37. mínútu leiksins en Simon Hedlund jafnaði metin fyrir gestina í Bröndby áður en fyrri hálfleik var lokið. Staðan því 1-1 er Hjörtur kom inn í lið gestanna í hálfleiki.

Það dró til tíðinda eftir aðeins fimm mínútna leik í síðari hálfleik. Þá nældi Morten Frendrup í sitt annað gula spjald og þurfti Bröndby því að leika manni færri síðustu 40 mínútur leiksins.

Það nýttu heimamenn sér en Patrick Mortensen kom þeim yfir á 78. mínútu og Albert Grønbæk gulltryggði sigurinn aðeins tveimur mínútum síðar. Staðan orðin 3-1 og reyndust það lokatölur leiksins.

AGF stekkur upp í 4. sæti deildarinnar með sigri kvöldsins þegar 11 umferðum er lokið. Liðið er með 18 stig en Bröndby situr sæti ofar með 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×