Fótbolti.net fjallar um málið í dag. Þar segir að Jón Þór hafi farið yfir strikið í samræðum við leikmenn leikmenn landsliðsins.
Í samtali við Fótbolta.net viðurkennir Jón Þór að samtölin hafi ekki verið við hæfi og hann hafi beðist afsökunar á þeim.
„Varðandi þetta kvöld að þá áttu sér stað samtöl milli þjálfara og leikmanna sem hefðu vissulega ekki átt að eiga sér stað á þessum tímapunkti og við þessar aðstæður,“ sagði Jón Þór við Fótbolta.net.
„Ég tók þátt í að fagna okkar árangri og eftir á að hyggja voru það mistök. Ég hef rætt við hluta þeirra leikmanna sem ég átti þessi samtöl við og beðist afsökunar.“
Fótbolti.net leitaði viðbragða hjá KSÍ vegna málsins og varðandi áfengisneyslu í landsliðsferðum. Klara Bjartmarz, framkvæmdarstjóri KSÍ, vildi ekki svara erindinu efnislega en sagði að mál Jóns Þórs væri í skoðun.
„Við höfum heyrt af þessu og erum með þetta mál í skoðun hjá okkur. Meðan það er í skoðun og við erum að afla upplýsinga munum við ekki svara efnislega á þessum tímapunkti,“ sagði Klara við Fótbolta.net.
Ísland vann Ungverjaland, 0-1, á þriðjudaginn í lokaleik sínum í undankeppni EM. Eftir hagstæð úrslit í öðrum leikjum seinna um kvöldið var svo ljóst að Íslendingar væru komnir á fjórða Evrópumótið í röð.