Lífið

Áföll hafa litað líf Birgittu Haukdal

Stefán Árni Pálsson skrifar
Birgitta Haukdal hefur sannarlega gengið í gegnum erfiða tíma. 
Birgitta Haukdal hefur sannarlega gengið í gegnum erfiða tíma.  Mynd/snæbjörn

Birgitta Haukdal er einhver mesta poppstjarna sem til hefur verið hér á landi en er í dag einnig rithöfundur. Hún ræðir um lífið og tilveruna við Snæbjörn Ragnarsson í hlaðvarpinu Snæbjörn talar við fólk. Bæði eru þau frá Húsavík og þekkjast vel og hafa gert í mörg ár.

Líf Birgittu hefur ekki alltaf verið auðvelt því hún missti eldri bróður sinn þegar hann tók líf sitt, þá sjálfur á unglingsaldri. Síðar meir missti Birgitta vinkonu sína á sama hátt og allt hefur þetta vitaskuld markað hana til framtíðar.

„Ég missi bróðir minn þegar ég er þrettán, fjórtán ára. Þá er hann átján ára og ég á svo góðar minningar með honum og hann var svo mikill þungarokkari,“ segir Birgitta í samtalinu við Snæbjörn sem sjálfur er mikill þungarokkari.

„Þetta var rosalegur pakki og mjög erfitt fyrir fjórtán ára ungling sem veit ekki alveg hver hann er. Hann er ekki barn og ekki fullorðinn og þetta er mjög erfiður aldur til þess að lenda í svona áfalli og þar missti ég svolítið fótanna og öllu kippt undan mér á einu augabragði og það tíma að púsla því öllu saman aftur. Þetta áfall hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég þurfti mikla vinnu, kjark og þolinmæði til að vinna úr þessu heilsulega á rétta braut.“

Vildi ekki vera íþyngjandi

Hún segir að þarna hafi hún átt yngri systur sem var þarna sex ára og hún hafi þá reynt að vera sterk fyrir hana.

„Ég gerði allt til að vera sterk og vildi ekkert vera gráta mikið fyrir framan mömmu og pabba eða systir mína og vildi passa upp á að þeir sem voru brotnir liðu betur. Ég vildi ekki vera íþyngja þeim að mér liði líka illa. Það er svo sérstakt að sjá klettana í þínu lífi brotna. Ég tók því bara hnefann á þetta og ætlaði ég bara að sýna öllum hvað ég væri sterkt. Það tók mig alveg þrjú fjögur ár að fúnkera. Þetta tók heilsuna mína en þegar þú pælir svona rosalega niður tilfinningar þá fer líkaminn bara að klikka,“ segir Birgitta sem einfaldlega missti heilsuna einu til tveimur árum seinna.

Snæbjörn og Birgitta þekkjast vel enda bæði frá Húsavík.

Í þættinum ræðir hún einnig um það þegar ein besta vinkona hennar tók sitt eigið líf og það hafi verið gríðarlega erfitt fyrir Birgittu. Hún segir að hún hafi jafnvel ekki enn náð að vinna sig í gegnum það áfall í dag.

Í spjallinu kemur einnig fram að Birgitta er að skrifa barnaleikrit með leikaranum Góa um Láru og Ljónsa sem fer á svið á næsta ári.

Hér að neðan má hlusta á þáttinn en umræðan um bróðurmissinn hefst þegar einn klukkutími og tíu mínútur eru liðnar af þættinum.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×