Sóttvarnalæknir skilaði minnisblaði sínu um endurskoðaðar sóttvarnarráðstafanir til heilbrigðisráðherra í gær. Hann hefur ekki greint frá eðli þeirra en á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði hann „ekki mikið rými til almennra tilslakana eins og staðan er núna ef við viljum ekki fá bakslag í faraldurinn“.
Heilbrigðisráðherra hefur nánast undantekningalaust samþykkt tillögur sóttvarnalæknis um næstu aðgerðir óbreyttar. Ráðherra mun leggja tillögurnar á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið, en núgildandi reglugerð fellur úr gildi 2. desember.
Andrés hefur áhyggjur af því að tíu manna samkomutakmarkanir verði áfram í gildi í jólavertíðinni. „Þetta horfir mjög illa við okkur. Það sem við gagnrýnum, höfum gagnrýnt og gagnrýnum enn er skortur á fyrirsjáanleika, skortur á samræmi og skortur á samráði sóttvarnayfirvalda,“ segir hann.
Hann segir að þekking og reynsla hafi myndast á hegðun fólks í verslunum og því sé samráðið afar mikilvægt.
„Við höfum ekki orðið vör við það að sóttvarnayfirvöld hafi haft nokkuð samráð við okkur né aðra aðila í atvinnulífinu um þessar aðgerðir. Það er jú þannig að á þessum níu mánuðum sem liðnir eru síðan faraldurinn hófst þá hefur myndast þekking og reynsla í atvinnulífinu á því hvernig fólk hegðar sér, hvaða þarfir fólk hefur og hvernig atvinnulífinu þykir ástæða til að bregðast við. Þetta eru allt atriði sem við gagnrýnum mjög.“
Þá sé ljóst að vandamál muni skapast í tíu manna takmörkunum, til dæmis þegar fólk hyggur á jólatrjáakaup.
„Ég bara kvíði því mjög. við getum bara tekið sem dæmi að núna byrjar fólk að kaupa sér jólatré. Eins og reglurnar eru núna þá geta einungis tíu manns verið inni í hverju rými þar sem fólk er að kaupa jólatré og það getur hver og einn spurt sjálfan sig að því hvernig það gangi núna næstu kannski tvær, þrjár vikur, ef öll þjóðin á að fara inn í tíu manna hollum inn í þessar tiltölulega fáu verslanir til að kaupa sér jólatré. Það mun ekki ganga upp. Ég bara fullyrði það,“ segir hann.
„Óskastaðan væri sú að lágmarksfjöldinn yrði hækkaður upp í tuttugu og stærri verslanir gætu haft að minnsta kosti 100 manns inni í einu, og síðan einn fyrir hverja tíu fermetra umfram það.“