Karl Gústaf Svíakonungur, Silvía drottning, Viktoría krónprinsessa og Daníel prins eru ekki smituð af kórónuveirunni. Voru þau öll skimuð í dag eftir að Karl Filippus og Sofía prinsessa, eiginkona hans, greindust með Covid-19.
Samkvæmt tilkynningu sænsku konungshallarinnar eru Karl Filippus og Sofía við ágæta heilsu. Þau finni fyrir flensueinkennum en líði eftir atvikum vel.
Upplýsingafulltrúi konungsfjölskyldunnar segir að fjölskyldan hafi öll komið saman síðastliðinn föstudag við útför Walther Sommerlath, bróður Silvíu drottningar.
Kórónuveirufaraldurinn hefur sótt í sig veðrið í Svíþjóð og hafa dagleg smit aldrei verið fleiri. Rúmlega 5.800 greindust með veiruna í gær og 67 létust. 220 eru á gjörgæslu þar í landi.
Sóttvarnayfirvöld í Svíþjóð segjast búast við því að önnur bylgja kórónuveirufaraldursins sem nú geisar þar nái hámarki sínu um miðjan desember.