Erlent

Myrti konuna sína og brenndi líkið

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jonathann Daval ásamt tengdaforeldrum sínum á blaðamannafundi eftir að Alexia Daval fannst myrt.
Jonathann Daval ásamt tengdaforeldrum sínum á blaðamannafundi eftir að Alexia Daval fannst myrt. EPA-EFE/BRUNO GRANDJEAN

Frakkinn Jonathann Daval hefur verið dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að hafa myrt eiginkonu sína og brennt lík hennar. Breska ríkisútvarpið segir frá.

Líkamsleifar Alexiu Daval fundust í skóglendi nærri bænum Gray í norðausturhluta Frakklands í október 2017. Gerð hafði verið tilraun til að brenna líkið en gríðarlega hátt hitastig þarf til þess og var líkið því aðeins brunnið að hluta þegar það fannst.

Eiginmaður hennar, Jonathann Daval, hafði tilkynnt hana týnda, og greindi hann lögreglu frá því við tilkynninguna að hún hafi farið út að skokka en ekki snúið aftur. Hann játaði síðar að hafa barið hana til dauða og að hafa í kjölfarið lagt eld að líkinu.

Alexia var 29 ára gömul og vann í banka þegar hún hvarf í október 2017. Lík hennar fannst tveimur dögum eftir tilkynninguna, brunnið að hluta og hafði líkið verið hulið með greinum og öðrum gróðri í skóglendi langt frá þeirri leið sem hún fór iðulega þegar hún fór út að skokka.

Parísarbúar skokka til minningar Alexiu Daval.Getty/Michel Stoupak

Morðið skók samfélagið í bænum Grey og gengu 10.000 bæjarbúar henni til minningar. Þá skipulögðu konur víða í Frakklandi minningarhlaup fyrir hana.

Eftir dauða hennar hafði Jonathann talað á blaðamannafundi ásamt foreldrum hennar þar sem hann biðlaði til almennings að hafa samband við lögreglu hefði það einhverjar upplýsingar um morðið. Aðeins þremur mánuðum síðar tilkynntu saksóknarar að hann hefði játað á sig morðið. Til að byrja með neitaði hann því að hafa reynt að brenna líkið en játaði síðan í fyrra.

Hann hefur ítrekað breytt frásögn sinni af atburðarrásinni en fyrr í þessari viku játaði hann fyrir dómi að hafa verið einn að verki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×