Eins dýrmæt og staða Íslands í fyrstu útgáfu Þjóðadeildarinnar reyndist liðinu í baráttunni um að komast á EM þá hjálpar Þjóðadeildin liðinu ekkert í baráttunni um að komast á HM.
Lokastaða í Þjóðadeildinni réði því hvaða lið fóru í umspil um fjögur síðustu sætin á EM, umspilið sem Ísland lék í gegn Rúmeníu og svo Ungverjalandi á dögunum.
Staðan í Þjóðadeildinni mun einnig hafa áhrif á umspil fyrir HM í Katar, en þó önnur og mun minni. Aðeins tvö lið komast nefnilega í HM-umspilið í gegnum Þjóðadeildina, og þau verða valin með öðrum hætti en áður.
Að þessu sinni telur meira að hafa unnið riðil í D-deild en að hafa lent í 2. sæti í riðli í A-deild. Þess vegna eru Færeyjar og Gíbraltar hærra á forgangslistanum inn í umspilið fyrir HM, en Ísland.
Tvö lið úr Þjóðadeildinni með í tólf liða HM-umspilinu
Það er þó ólíklegt að frændur vorir Færeyingar komist í umspilið. Liðin sem unnu riðla í A-deild Þjóðadeildarinnar, B-deild og C-deild, eru ofar á listanum. En ef þau enda öll í efsta eða næstefsta sæti síns riðils í undankeppni HM, þá geta Færeyingar farið í umspilið.
Eftirtaldar þjóðir unnu sína riðla í Þjóðadeildinni. Efstu tvær þjóðirnar á þessum lista, sem ekki enda í tveimur efstu sætum síns riðils í undankeppni HM, fara í umspil um sæti á HM í Katar.
Forgangslisti í HM-umspilið:
Frakkland
Belgía
Ítalía
Spánn
Wales
Austurríki
Tékkland
Ungverjaland
Slóvenía
Svartfjallaland
Albanía
Armenía
Gíbraltar
Færeyjar
Í undankeppni HM verður leikið í tíu riðlum, efstu liðin komast beint á HM og liðin í 2. sæti fara í 12 liða umspil, með liðunum tveimur sem komast þangað sem sigurvegarar riðils í Þjóðadeildinni.

Knattspyrnusamband Evrópu kom Þjóðadeildinni á laggirnar haustið 2018 og vegna frábærs árangurs íslenska karlalandsliðsins í fótbolta árin þar á undan þá var Ísland sett í A-deild, sem ein af tólf bestu þjóðum Evrópu.
Ísland tapaði öllum leikjum sínum á fyrstu leiktíð keppninnar og hefði fallið ef UEFA hefði ekki ákveðið að fjölga liðum í A-deild, úr 12 í 16. Eftir að hafa aftur tapað öllum leikjum sínum á annarri leiktíð Þjóðadeildarinnar, nú í haust, er Ísland hins vegar fallið niður í B-deild.
Næsta leiktíð í Þjóðadeildinni verður árið 2022. Áætlað er að fjórir leikir verði í júní og tveir í september. HM hefst svo í Katar 21. nóvember sama ár.