Veður

Snjókoma í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það verður áfram ansi kalt á landinu í dag en svo fer veður hlýnandi.
Það verður áfram ansi kalt á landinu í dag en svo fer veður hlýnandi. Veðurstofa Íslands

Það verður fremur hægur vindur í dag og víða léttskýjað framan af degi. Þá verður frost yfirleitt á bilinu tvö til tíu stig að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Eftir hádegi snýst hann síðan í vaxandi suðaustanát og þykknar upp með stöku éljum sunnantil á landinu.

Í kvöld er svo spáð suðaustan tíu til átján metrum á sekúndu og rigningu eða snjókomu með köflum sunnan- og vestanlands, en heldur hægari vindur og þurrt að mestu fyrir norðan. Það hlýnar með deginum og verður hiti um og yfir frostmarki seint í kvöld.

Í nótt mun síðan lægja og draga úr úrkomu en í fyrramálið fer aftur að rigna sunnan- og suðaustanlands í fyrramálið.

Síðdegis á morgun snýst í vaxandi norðanátt með snjókomu, slyddu eða rigningu um landið norðan- og austanvert. Sunnan heiða styttir hins vegar víða upp.

Veðurhorfur á landinu:

Fremur hæg suðlæg átt og víða léttskýjað, frost 2 til 10 stig. Vaxandi suðaustanátt eftir hádegi og þykknar upp með stöku éljum S-til. Suðaustan 10-18 m/s í kvöld og rigning eða snjókoma með köflum S- og V-lands, en heldur hægari og þurrt að mestu fyrir norðan. Hlýnandi, hiti um og yfir frostmarki seint í kvöld.

Lægir og dregur úr úrkomu í nótt, en fer aftur að rigna S- og SA-lands í fyrramálið. Snýst í vaxandi norðanátt síðdegis á morgun með snjókomu, slyddu eða rigningu um landið N- og A-vert, en styttir víða upp sunnan heiða.

Á föstudag:

Suðaustan og austan 5-10 m/s og rigning með köflum, en úrkomulítið fyrir norðan. Snýst í vaxandi norðanátt síðdegis með snjókomu, slyddu eða rigningu um landið N- og A-vert, en styttir upp S- og V-lands. Hiti 0 til 6 stig, en vægt frost í innsveitum á N-landi.

Á laugardag:

Norðan og norðvestan 15-20 um landið A-vert, annars hægari vindur. Snjókoma eða rigning N-lands, en þurrt að kalla sunnan heiða. Dregur úr úrkomu og lægir eftir hádegi. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:

Hæg breytileg átt og bjart með köflum, en dálítil él við S-ströndina. Frost 0 til 8 stig, kaldast inn til landsins.

Á mánudag og þriðjudag:

Austlæg átt og þurrt að kalla, frost 1 til 9 stig. Dálítil rigning eða slydda með S-ströndinni og hiti 0 til 4 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×