Báðir vítaspyrnudómarnir sem nýttust Christian Eriksen til að skora í 2-1 sigri Danmerkur gegn Íslandi í gær standast skoðun.
Þetta segir Þóroddur Hjaltalín, formaður dómaranefndar KSÍ. Engir myndbandsdómarar, VAR, starfa á leikjum í Þjóðadeildinni nú í haust. Þóroddur segir að sennilega hefði engu breytt að hafa slíkan dómara á leiknum í gær, þó mögulegt sé að þá hefði verið dæmd rangstaða í aðdraganda fyrra marks Dana:
„Það er hugsanlegt en mér finnst ekki hægt að segja með óyggjandi hætti að hann [Daniel Wass] sé rangstæður. Eins fúlt og það er þá held ég að þetta standist allt skoðun,“ segir Þóroddur.

Þóroddur telur þó að hægt hefði verið að sleppa því að dæma fyrra vítið, á Ara Frey Skúlason fyrir brot á Daniel Wass. Vítið má sjá hér að neðan.
„Í fyrra vítinu er ekkert hægt að segja að þetta séu mistök. Það er alveg hægt að réttlæta þetta, með því að hann sparki í síðuna á honum. En mín persónulega skoðun er að þetta sé svolítið „soft“, en alls ekki augljós mistök eða eitthvað slíkt. Seinna vítið er bara víti eins og skilgreiningin er í dag.“
En hefði myndbandsdómari sagt tyrkneska dómaranum Halil Umut Meler að skoða hið meinta brot Ara í fyrra vítinu, ef Wass var á annað borð réttstæður?
„Nei, þetta er einmitt mjög gott dæmi. VAR er hugsað til þess að taka á augljósum mistökum. Ef að hann hefði ekki dæmt víti þá er minn skilningur sá að VAR hefði ekki sagt honum að skoða þetta, rétt eins og að VAR hefði ekkert sagt við því að hann dæmdi víti. Þannig á VAR að virka. Þetta er bara matsatriði dómara og ég myndi sem eftirlitsmaður ekki taka dómarann niður fyrir að hafa dæmt víti.“
Í seinni vítaspyrnudómnum fékk Hörður Björgvin Magnússon boltann í höndina af mjög stuttu færi, þegar hann stökk upp til að reyna að skalla og sneri bakinu í boltann. Hörður fékk gult spjald og verður í leikbanni gegn Englandi á Wembley á miðvikudaginn, en seinna vítið má sjá hér að neðan.
„Þetta er bara rosaleg óheppni. Höndin er í óeðlilegri stöðu, það er að segja út frá líkamanum, og svo kemur skallinn í höndina. Eins og við vitum þá er ekki hægt að hoppa upp í skallaeinvígi með hendur niðri með síðum, en það er hægt að segja að hann sé „breiðari“ í þessari stellingu og ekkert við þessum dómi að segja miðað við núverandi skilgreiningu,“ segir Þóroddur.