Handbolti

Noregur hættir við að halda EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir Hergeirsson hefur þjálfað norska kvennalandsliðið í handbolta síðan 2009.
Þórir Hergeirsson hefur þjálfað norska kvennalandsliðið í handbolta síðan 2009. getty/Oliver Hardt

Noregur hefur hætt við að halda Evrópumót kvenna í handbolta í næsta mánuði vegna kórónuveirufaraldursins. Noregur átti að halda mótið ásamt Danmörku.

Í fréttatilkynningu frá norska handknattleikssambandinu segir að þessi erfiða ákvörðun hafi verið tekin eftir ítarlega skoðun norskra heilbrigðisyfirvalda og kröfur norskra stjórnvalda.

Kåre Geir Lio, forseti norska handknattleikssambandsins, segir að allra leiða hafi verið leitað til að halda EM í Noregi en það hafi ekki verið mögulegt vegna strangra sóttvarnareglna þar í landi.

Evrópska handknattleikssambandið, EHF, segist harma þá ákvörðun Noregs að geta ekki haldið EM. EHF leitar nú annarra kosta í samstarfi við danska handknattleikssambandið.

Líklegt er að EM verði eingöngu haldið í Danmörku þótt Per Bertelson, forseti danska handknattleikssambandsins, vildi ekki ábyrgjast það í yfirlýsingu.

Evrópumótið átti að fara fram í Herning í Danmörku og Frederikshavn, Stavanger, Osló og Þrándheimi í Noregi. Úrslitaleikurinn átti að fara fram í síðastnefndu borginni 20. desember. Evrópumótið á að hefjast 3. desember.

Þórir Hergeirsson er sem kunnugt er þjálfari norska kvennalandsliðsins sem hefur þrisvar sinnum orðið Evrópumeistari undir hans stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×