Upphaflega átti blaðamannafundur Ungverja fyrir leikinn mikilvæga gegn Íslandi annað kvöld að fara fram í hádeginu í dag. Eftir að Marco Rossi – þjálfari Ungverjalands – greindist með kórónuveiruna í morgun var blaðamannafundinum frestað þangað til í kvöld. Hann var með áhugaverðara lagi en fundurinn fór fram á ungversku, ítölsku og ensku.
Alls var fundurinn rúmar 45 mínútur en þær tvær spurningar sem voru bornar upp á ensku var svarað á um það bil hálfri mínútu.
Marco Rossi nú í einangrun og verður því ekki á hliðarlínunni annað kvöld. Hann ræddi við blaðamenn í gegnum forrit á borð við Skype eða Zoom.
„Allir leikmenn ungverska liðsins eru frískir og í góðu standi fyrir leikinn á morgun. Það eru engin vandamál í hópnum og allir klárir í leikinn,“ sagði Rossi um stöðuna á leikmannahópi Ungerja.
Ítalski þjálfarinn var spurður út í fjarveru sína í leiknum mikilvæga á morgun.
„Fjarvera mín mun ekki hafa áhrif þar sem allur undirbúningur hefur verið hefðbundinn þangað til í gærkvöldi. Ég er ekki langt frá leikmönnunum núna, ég var með þeim í gær og er alltaf með þeim.“
Að lokum þakkaði fjölmiðlafulltrúi ungverska liðsins þjálfaranum fyrir og óskaði honum skjóts bata.
Í kjölfarið mætti Ádám Nagy – leikmaður Bristol City í ensku B-deildinni - sem talaði eingöngu ungversku. Var hann spurður út í Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfa Þór Sigurðsson. Hver svörin voru er enn óljóst fyrir blaðamanna að svo stöddu.
Blaðamannafundinn má sjá hér að neðan.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.