Fótbolti

6 dagar í Ungverjaleik: Ungverjar eiga eitt vandræðalegasta umspil allra tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Predrag Mijatovic skoraði sjö mörk í tveimur umspilsleikjum á móti Ungverjum árið 1997 og hjálpaði Júgóslavíu að vinna 12-1 samanlagt. Hér skorar hann eitt af þessum mörkum.
Predrag Mijatovic skoraði sjö mörk í tveimur umspilsleikjum á móti Ungverjum árið 1997 og hjálpaði Júgóslavíu að vinna 12-1 samanlagt. Hér skorar hann eitt af þessum mörkum. Getty/Neal Simpson

Ungverska knattspyrnulandsliðið komst á síðasta stórmót sitt í gegnum umspil en Ungverjar vilja örugglega ekki ræða mikið þarsíðasta umspil liðsins undir lok síðustu aldar.

Í dag eru sex dagar í úrslitastund hjá strákunum okkar í karlalandsliðinu í fótbolta en 12. nóvember næstkomandi kemur í ljós á Ferenc Puskás leikvanginum í Búdapest hvort það verður Ungverjaland eða Ísland sem spilar í lokakeppni Evrópumótsins í sumar.

Leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport og spennan magnast með hverjum drginum. Vísir heldur áfram að telja niður í leikinn.

Ungverjar eru reyndari en Íslendingar í svona umspilum fyrir stórmót en þetta verður fimmta umspil ungverska landsliðsins frá upphafi. Eina umspil íslenska landsliðsins var þegar liðið tapaði fyrir Króötum árið 2013 í umspili um sæti á HM í Brasilíu 2014.

Ísland komst beint á EM 2016 en ungverska liðið fór lengri leiðina. Ungverjar unnu Norðmenn í umspili fyrir Evrópumótið 2016 en ungverska liðið vann báða leikina, 1-0 í Noregi og 2-1 í Ungverjalandi.

Dragan Stojkovic og Dejan Savicevic fagna stórsigrinum á Ungverjum árið 1997.Getty/Neal Simpson

Það er hins vegar eitt af þessum fjórum umspilum Ungverja í gegnum tíðina sem stingur í augum. Þar erum við að tala um umspil fyrir heimsmeistarakeppnina í Frakklandi sumarið 1998 þar sem Ungverjar kepptu vð Júgóslavíu um sæti á HM.

Ungverjar unnu bara þrjá af átta leikjum sínum í riðlinum í undankeppni HM 1998 en það dugði samt í annað sætið sem gaf sæti í umspil. Norðmenn unnu riðilinn og komust beint á HM.

Ungverjar tryggðu sér sætið með því að gera 1-1 jafntefli í Finnlandi í lokaleik riðilsins en Finnar hefði náð öðru sætinu með sigri. Jöfnunarmarkið var sjálfsmark Finna í uppbótatíma og það gat því varla munað minna.

Ungverjar drógust í framhaldinu á móti Júgóslavíu í umspilinu. Júgóslavar lentu í öðru sæti í sínum riðli eftir hörkubaráttu við Spánverja sem unnu riðilinn. Það má því vissulega segja sem svo að þegar kom að fyrri umspilsleiknum í lok október 1997 þá voru Júgóslavar vissulega sigurstranglegri. Útkoman var hins vegar afar vandræðaleg fyrir ungverska knattspyrnu.

Júgóslvavar unnu fyrst 7-1 sigur á heimavelli Ungverja og fylgdu því síðan eftir með því að vinna seinni leikinn 5-0 á heimavelli.

Predrag Mijatovic, sem var þarna leikmaður Real Madrid, skoraði þrennu í fyrri leiknum og gerði síðan enn betur með því að skora fernu í þeim síðari. Predrag Mijatovic var í flottu formi þetta tímabil og vorið eftir skoraði hann sigurmark Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Savo Milosevic skoraði líka í báðum leikjunum.

Niðurstaðan var því 12-1 tap og líklega vandræðalegasta frammistaða í evrópsku umspili um sæti á heimsmeistaramóti. Þjálfarinn, János Csank, sagði líka af sér eftir seinni leikinn.

Júgóslavar komust í sextán liða úrslitin á HM í Frakklandi 1998 en töpuðu þar 2-1 á móti gríðarlega sterku liði Hollendinga.

Ungverska landsliðið fór í framhaldinu af þessari niðurlægingu í mikla lægð og Ungverjar komust ekki aftur á stórmót fyrr en á Evrópumótið fyrir rúmum fjórum árum. Þegar Ungverjar unnu Norðmenn í umspilinu í nóvember 2015 þá voru liðin átján ár frá þessum tveimur rassskellum á móti Júgóslövum.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×