Innlent

Einboðið að bólusetning gegn kórónuveirunni verði gjaldfrjáls

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir einboðið að bólusetning gegn kórónuveirunni verði gjaldfrjáls þegar af henni verður.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði heilbrigðisráðherra um fyrirkomulag mögulegra bólusetninga gegn Covid-19 í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Svandís vísaði til þess að Íslendingar hafi þegar tryggt sér tiltekinn fjölda af bóluefnisskömmtum hjá tveimur mismunandi fyrirtækjum. Enn ríki þó mikil óvissa í þeim efnum.

„Þegar við horfum á stöðu faraldursins verðum við að horfast í augu við að við gætum mögulega verið að glíma við faraldurinn langt inn á næsta ár og sérstaklega ef bóluefnið léti bíða eftir sér, væri ekki nægilega tryggt, nægilega öruggt eða nægilega virkt.“

Forgangsröðun og skipulagning væri í höndum sóttvarnarlæknis. Væntanlega yrði farin sama eða svipuð leið og að jafnaði við bólusetningu gegn inflúensu.

„Þegar litið er svo á að tilteknir hópar, viðkvæmustu hópar samfélagsins, þeir sem búa við undirliggjandi sjúkdóma eða háan aldur, séu í forgangi, sem og framlínustéttir, og þá fyrst og fremst heilbrigðisstarfsfólk. Ég geri ráð fyrir að það yrði með svipuðum hætti í þessu tilviki og mér finnst einboðið að bólusetning gegn Covid-19 væri án endurgjalds.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×