Bandaríska geimfarið Osiris-Rex er nú tilbúið til heimfarar eftir að lokið var við að tryggja dýrmætan farm þess, sýni af yfirborði smástirnisins Bennu, í gær. Sýnið berst þó ekki til jarðar fyrr en í september árið 2023.
Geimfarinu var flogið rétt að yfirborði Bennu í síðustu viku. Armur úr geimfarinu teygði sig niður og þyrlaði upp jarðvegi sem hann safnaði svo. Erfiðlega gekk í fyrstu að loka sýnahylkinu og lak því eitthvað af jarðveginum út í geim.
NASA, bandaríska geimvísindastofnunin, tilkynnti í gær að nú væri búið að koma sýninu fyrir í sérstöku hylki sem verður sent heim til jarðar og loka því. Aðgerðin var mikið nákvæmnisverk og tók heila tvo daga. Eftir hvern áfanga þurftu leiðangursstjórarnir að fullvissa sig um að hann hefði gengið að óskum út frá myndum og fjarmælingum áður en hægt var að halda áfram með næsta áfanga lokunaraðgerðarinnar.
Osiris-Rex og Bennu eru í um 330 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðu og því tekur það fjarskiptamerki um átján og hálfa mínútu að ferðast aðra leiðina.
I’ve officially closed the Sample Return Capsule! The sample of Bennu is sealed inside and ready for our voyage back to Earth. The SRC will touch down in the Utah desert on Sep. 24, 2023. Thanks, everyone, for being a part of my journey #ToBennuAndBack pic.twitter.com/z75ITNiGBf
— NASA's OSIRIS-REx (@OSIRISREx) October 29, 2020
Talið er að Osiris-Rex hafi náð að safna um 400 grömmum af jarðvegi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Vísindamenn greina sýnið þegar það berst til jarðar en vonir standa til að það geti varpað frekara ljósi á aðstæður við myndum sólkerfisins fyrir um fjórum og hálfum milljarði ára. Bennu er talið brot sem kvarnaðist upp úr mun stærra smástirni. Í smástirnum er að finna leifar efnis frá frumbernsku sólkerfisins.
Osiris-Rex er nú fyrir utan braut jarðar og handan við sólina. NASA segir að glugginn til að hefja heimförina opnist í mars. Gangi allt að áætlun sleppir geimfarið sýnahylkinu þegar það þýtur fram hjá jörðinni í september eftir þrjú ár. Hylkið á að svífa á fallhlíf til mjúkrar lendingar í eyðimörk í Utah í Bandaríkjunum.
