Innlent

Segja rústirnar hættu­legar og vekja „dag­legan óhug“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Brunarústirnar við Bræðraborgarstíg 1.
Brunarústirnar við Bræðraborgarstíg 1. Vísir/vilhelm

Íbúaráð Vesturbæjar telur mikilvægt að rústir húss að Bræðraborgarstíg 1 sem brann í lok júní síðastliðnum verði fjarlægðar strax í nóvember. Hætta stafi af rústunum og þær veki óhug hjá nágrönnum. Þetta kemur fram í bókun íbúaráðs sem lögð var fram á fundi ráðsins á miðvikudag í síðustu viku.

Þrjú fórust í brunanum á Bræðraborgarstíg í júní. Málið vakti mikinn óhug og þótti sýna fram á slæman aðbúnað sem erlent verkafólk býr gjarnan við hér á landi.

„Í þessum mikla harmleik sáu eða skynjuðu margir íbúar hverfisins ýmislegt sem á eftir að fylgja þeim allt þeirra líf,“ segir í bókun íbúaráðs.

Bent er á að rústir hússins hafi staðið í fjóra mánuði en rannsókn á vettvangi löngu lokið. Enn sé brunalykt af rústunum, hætta að börn fari inn í húsið, að aftur kvikni í eða að það „hrynji alveg í næstu haustlægð“.

„Rústirnar vekja einnig slæmar minningar og daglegan óhug hjá mörgum sem þarna búa. Mikilvægt er að rústirnar séu fjarlægðar og lóðin hreinsuð nú strax í nóvember fyrir næstu stóru haustlægð,“ segir í bókuninni.

Ef eigandi verði ekki strax við tilmælum borgarinnar um að fjarlægja rústirnar er mælst til þess að borgin láti fjarlægja þær strax á hans kostnað, líkt og lög gefi heimild til.

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir manndráp og íkveikju vegna brunans. Fram kemur í ákæru að hann hafi kveikt eld á þremur stöðum í húsinu. Afleiðingarnar voru þær að tvær konur og einn karlmaður létust í brunanum, öll þrjú frá Póllandi.


Tengdar fréttir

Gæti orðið frjáls ferða sinna

Marek Moszczynski neitaði sök þegar ákæra á hendur honum var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann er grunaður um manndráp af ásetningi og íkveikju við Bræðraborgarstíg í sumar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×