Kórónuveiran hefur ekki bara hreiðrað um sig í herbúðum Inter heldur er hún líka farin að hafa áhrif á leikmannahóp erkifjendanna í AC Milan.
Tveir leikmenn Milan hafa greinst með veiruna; markvörðurinn Gianluigi Donnarumma og norski kantmaðurinn Jens Petter Hauge. Þá eru þrír úr starfsliði Milan smitaðir af veirunni.
Samkvæmt frétt á heimasíðu Milan eru þeir allir einkennalausir og eru í einangrun heima hjá sér.
Donnarumma og Hauge verða báðir fjarri góðu gamni þegar Milan tekur á móti Roma í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld. Rúmenski landsliðsmarkvörðurinn Ciprian Tatarusanu stendur væntanlega milli stanganna hjá Milan í kvöld í fjarveru Donnarummas. Þá er eldri bróðir Donnarummas, Antonio, einnig markvörður á mála hjá Milan.
Hauge, sem er 21 árs, kom til Milan frá Bodø/Glimt í byrjun þessa mánaðar. Hann hefur leikið tvo leiki með Milan og skorað eitt mark.
Milan er með fullt hús stiga á toppi ítölsku deildarinnar og með sigri í kvöld nær liðið fjögurra stiga forskoti á Napoli og Sassuolo sem eru í 2. og 3. sæti.
Leikur Milan og Roma hefst klukkan 19:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.