Erlent

Mót­mælendur trufluðu messu­hald í Pól­landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mótmælendur héldu til kirkju í Póllandi í dag.
Mótmælendur héldu til kirkju í Póllandi í dag. EPA-EFE/JAKUB KACZMARCZYK

Mótmælendur í Póllandi hafa í dag haldið inn í kirkjur til þess að trufla messuhöld. Mótmælendur hafa síðastliðna viku mótmælt nýjum þungunarrofslögum í Póllandi, sem banna þungunarrof nær alveg.

Mótmælendur söfnuðust saman í kirkjum þar sem þeir héldu setumótmæli og héldu uppi skiltum sem sýndu stuðning þeirra við þungunarrofi. Mörg mótmælanna fóru fram á meðan á sunnudagsmessum stóð.

Mótmælin eru talin nokkuð óvenjuleg en kaþólska kirkjan hefur mikil völd í Póllandi að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins.

Stjórnlagadómstóll í Póllandi komst að þeirri niðurstöðu í vikunni að þungunarrof vegna fósturgalla stangist á við stjórnarskrá landsins og þýðir það að þungunarrof verður nú bannað í nær öllum tilfellum í landinu. Aðgerðin verður nú aðeins heimil í tilefni nauðgunar, sifjaspells eða þegar líf eða heils móður er í hættu.

Mótmælin hafa nú staðið yfir í fjóra daga og hafa þúsundir, flest konur, safnast saman til að mótmæla dómnum, þrátt fyrir samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins.

Prestar neyddust margir til að stöðva messuhald vegna viðveru mótmælenda, þar til lögregla mætti á staðinn.


Tengdar fréttir

Pipar­úða beitt á hundruð mót­mælenda í Pól­landi

Lögregla í Póllandi beitti piparúða á nokkur hundruð mótmælenda sem höfðu safnast saman á götum Varsjár í gærkvöldi til að mótmæla dómi stjórnlagadómstóls landsins sem bannar þungunarrof vegna fósturgalla.

Þungunarrof nær algerlega bannað í Póllandi

Dómur stjórnlagadómstóls Póllands um að þungunarrof vegna fósturgalla stangist á við stjórnarskrá landsins þýðir að þungunarrof verður nú bannað í nær öllum tilfellum í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×