Sport

Katrín endaði daginn vel og situr í öðru sætinu fyrir loka­daginn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir er eini fulltrúi Evrópu í ofurúrslitunum.
Katrín Tanja Davíðsdóttir er eini fulltrúi Evrópu í ofurúrslitunum. Instagram/@katrintanja

Katrín Tanja Davíðsdóttir er í öðru sætinu fyrir lokadaginn á heimsleikunum í CrossFit en fimm manna úrslit fara nú fram í Bandaríkjunum.

Níunda greinin og fjórða og síðasta grein dagsins bauð upp á létta þrautabraut. Hlaup, hopp yfir slá (e. burpee over beam) og „Thruster“ með fjórar mismunandi þyngdir en hringirnir voru fjórir.

Sá keppandi sem vinnur hverja grein fær 100 stig, annað sætið fær 75 stig, þriðja sætið fær 55 stig, fjórða sætið fær 35 stig og síðasta sætið fær 15 stig. Þú þarft hins vegar að klára greinina til að fá stig því annars færðu 0 stig.

Tia-Tair Toomey vann enn eina greinina er hún kom í mark á 8:42,59. Hún er með yfirburðarforystu. Hún vann allar fjórar greinar dagsins. Önnur í mark kom Kari Pearce á 9:17,37.

Fimmtán sekúndum síðar kom okkar kona, Katrín Tanja Davíðsdóttir, í mark á 9:32,02 eftir mikla eljusemi. Hún dróst aftur úr en gafst ekki upp og hirti þriðja sætið með frábærri endurkomu.

Það eru því góðir möguleikar fyrir Katrínu að komast á pall á morgun en á morgun fara fram þrjár greinar. Katrín er nú í 2. sætinu með samanlagt 480 stig, 25 stigum á undan Kari Pearce sem er í þriðja sætinu og 65 stigum á undan Haley Adams sem er í fjórða sætinu.

Tia-Clair Toomey er að vinna með miklum yfirburðum en hún er með 770 stig. Síðustu tvær greinarnar fara fram á morgun.

Í karlaflokki er Mathew Fraser í sérflokki. Hann stóð uppi sem sigurvegari í síðustu grein dagsins. Hann er með 875 stig og næsti maður, Jeffrey Adler frá Kanada, er með 440 stig. Samuel Kwant er þriðji með 415 og þeir Justin Medeiros og Noah Ohlsen jafnir í 4. og 5. sætinu með 395 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×