Erlent

Páfinn lýsir yfir stuðningi við staðfesta samvist samkynja para

Samúel Karl Ólason skrifar
Frans páfi í Vatíkaninu í dag.
Frans páfi í Vatíkaninu í dag. AP/Gregorio Borgia

Frans páfi er fyrsti páfinn til að lýsa yfir stuðningi við staðfesta samvist samkynja para. Það gerði hann í ummælum í heimildarmynd sem frumsýnd var í dag en talin er hafa verið tekin upp í fyrra. Heimildarmyndin Francesco var sýnt á kvikmyndahátíð Róm og inniheldur hún nokkur viðtöl við páfann þar sem hann ræðir þau málefni sem á honum brenna.

Þar á meðal eru umhverfismál, fátækt, fólksflutningar, kynþáttamisrétti og fátækt, svo eitthvað sé nefnt.

„Samkynhneigt fólk á rétt á því að vera í fjölskyldu. Þau eru börn guðs,“ sagði Frans í einu viðtalinu. „Þú getur ekki sparkað einhverjum úr fjölskyldu, eða gert líf þeirra óbærileg vegna þessa. Það sem við þurfum að hafa er löggild sambúð. Þannig eru þau varin í lögum.“

Samkvæmt AP fréttaveitunni hafði Frans lýst yfir stuðningi við staðfesta samvist samkynja para þegar hann var biskup í Argentínu en hann hefur þó aldrei gert það áður sem páfi. Það hafi engin páfi gert áður.

Í frétt AP segir einnig að umhverfi páfans í viðtalinu sé eins og umhverfi í öðru viðtali sem hann var í hjá Televisa í Mexíkó í fyrra. Talið sé að umrætt viðtal hafi verið tekið upp þá.

Fréttaveitan segir að margir hafi tekið ummælunum fagnandi en þó ekki allir.

Thomas Tobin, biskup í Rhode Island í Bandaríkjunum, kallaði til að mynda eftir því að Frans útskýrði ummælin frekar.

„Yfirlýsing páfans er greinilega í trássi við langvarandi afstöðu kirkjunnar um sambönd samkynja aðila,“ sagði hann í yfirlýsingu. „Kirkjan getur ekki lagt blessun sína yfir sambönd sem eru í eðli sínu ósiðleg.“

Samkvæmt kaþólsku kirkjunni eru samkynhneigðar tilhneigingar ekki syndir en það að sænga hjá samkynja aðila er synd. Kirkjan segir að koma eigi fram við samkynhneigt fólk af virðingu en ekki styðja lögleiðingu hjónabanda samkynja para.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×