Formaður Körfuknattleikssambands Íslands harmar hve lítið samráð hann telur yfirvöld hafa haft við íþróttahreyfinguna í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Ekki sé borin virðing fyrir „fjölmennustu fjöldahreyfingu landsins“.
Formaðurinn, Hannes S. Jónsson, vísar í frétt mbl.is um að uppbókað sé í alla tíma í World Class í Ögurhvarfi eftir að stöðin opnaði að nýju í dag eftir tveggja vikna lokun, og skrifar:
„Frábært að líkamsræktarstöðvar mega opna, það gleður mig! En samt má ekki stunda íþróttir í skipulögðu íþróttastarfi eða konan mín mæta í vinnuna sína á Englahár til að klippa og lita þá sem vilja komast í hársnyrtingu!“
Íþróttir með snertingu hafa verið bannaðar á höfuðborgarsvæðinu frá 8. október vegna útbreiðslu faraldursins, og verða áfram bannaðar til 3. nóvember. Íþróttafélögum á svæðinu var þó gefinn kostur á að hefja æfingar án snertingar, og að uppfylltum fleiri skilyrðum, í dag. Það varð ljóst eftir fund sem Hannes sat í hádeginu í gær, með fulltrúum annarra sérsambanda ÍSÍ og heilbrigðisyfirvalda.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sendu hins vegar í gærkvöld út fréttatilkynningu um að íþróttamannvirki þeirra yrðu áfram lokuð næstu vikuna, vegna faraldursins.
Erum sett í síðasta sætið
Hannes er þeirrar skoðunar að samstaðan sem ríkt hafi í upphafi faraldursins sé horfin. „Staðan í dag er sundung og það er vegna óreiðu yfirvalda og stjórnsýslunnar. Engin veit hver raunverulega ræður í sóttvarnaraðgerðum landsins í baráttunni við COVID hér á Íslandi í dag.“
Nú sé erfitt að vita hvað megi og hvað megi ekki í íþróttum. „Staðan breytist hratt, samráðið er ekkert. Fyrir mér lítur þetta þannig út að það er ekki borin virðing fyrir fjölmennustu fjöldahreyfingu landsins, íþróttahreyfingunni. Sama hvað við biðjum um mikið samráð og erum tilbúin að vinna með yfirvöldum allan sólarhringinn þá erum við sett í síðasta sætið,“ skrifar Hannes.
Pistilinn hans má lesa í heild sinni hér að neðan.
Frábært að líkamsræktarstöðvar mega opna , það gleður mig ! En samt má ekki stunda íþróttir í skipulögðu íþróttastarfi...
Posted by Hannes Sigurbjörn Jónsson on Þriðjudagur, 20. október 2020