Danski morðinginn og uppfinningamaðurinn Peter Madsen reyndi að flýja úr fangelsi í morgun. Ekstra bladet greinir frá þessu og birtir myndir af vettvangi þar sem sjá má Madsen sitjandi í grasi í vegarkanti í Albertslund, úthverfi Kaupmannahafnar, um 400 til 500 metrum frá fangelsinu.
Virðist því sem að Madsen hafi tekist að komast út úr Herstedvester-fangelsinu. Hann hefur nú verið handtekinn. Er hann sagður hafa komist út með því að hóta því að sprengja sjálfan sig í loft upp.

Ekstra bladet greindi frá mikilli lögregluaðgerð við Nyvej og sjá mátti á myndum tvo vopnaða lögreglumenn miða byssum sínum á Madsen. Sprengjusveit lögreglu var sögð vera á staðnum.
Blaðið segir frá því að Madsen virðist hafa verið með eitthvað sem líktist belti umhverfis mittið.
Vej er spærret af og politiet massivt til stede i Albertslund
Posted by Ekstra Bladet on Tuesday, 20 October 2020
Madsen var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2018 fyrir morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall . Madsen hafði boðið Wall um borð í heimasmíðaðan kafbát sinn og í siglingu að kvöldi 10. ágúst 2017. Hún skilaði sér hins vegar ekki í land og hófst þá mikil leit í Køge-flóa. Líkamspartar Wall fundust svo á hafsbotni eftir umfangsmikla leit á hafsbotni.
Lögregla segir frá því á Twitter að maður hafi verið handtekinn eftir flótta úr fangelsinu. Þar er þó ekki gefið upp um hvern ræðir.
Vi arbejder aktuelt på Nyvej i Albertslund, hvor en mand er anholdt efter forsøg på fangeflugt. Vi har undersøgelser på stedet, som er afspærret. Efterkom venligst vores anvisninger. Vi kan p.t. ikke give yderligere info mere følger senere. #politidk
— Vestegnens Politi (@VestegnsPoliti) October 20, 2020
Um 150 fangar eru nú í Herstedvester fangelsinu, margir einhverjir harðsvíruðustu glæpamenn Danmerkur. Ekstra Bladet segir frá því að Madsen hafi áður verið haldið í einangrun vegna gruns um að hann hafi ætlað sér að reyna að flýja.
Jenny Curpen, eiginkona Madsen síðan í janúar, kveðst í samtali við blaðið ekki vilja tjá sig um fréttir dagsins.