Innlent

„Þurfum að fá smitstuðulinn undir einn“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir segir að að þó smitstuðull hafi lækkað þurfi hann að lækka frekar svo hægt verði að slaka á sóttvarnaraðerðum. Prófessor í líftölfræði ítrekar mikilvægi þess að fólk fari að ítrustu sóttvarnarreglum svo þessi stuðull lækki á næstunni.

Háskóli Íslands og Landlæknir birtu spálíkan í gær um þróun kórónuveirufaraldursins. Þar kom fram að smitstuðullinn eða hvað hver smitaður einstaklingur utan sóttkvíar smitar marga að meðaltali hefur lækkað úr þremur í einn komma fimm. 

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands.Vísir/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir gríðarlega mikilvægt að koma stuðlinum niður í einn.

Þessi R-stuðull er svona aðeins á niðurleið er um einn komma fimm utan sóttkvíar. Það þýðir að við þurfum að halda áfram í þessum aðgerðum og þurfum að fá hann undir einn svo hægt sé að slaka eitthvað á því þá er faraldurinn að minnka.

Thor Aspelund prófessor í líftölfræði sem er meðal þeirra sem gerði spálíkanið ítrekaði í viðtali við fréttastofu í gær mikilvægi þess að fólk fari að ítrustu sóttvarnarreglum svo þessi stuðull lækki á næstunni. 

Fram hefur komið að ennþá vantar í bakvarðasveit heilbrigðisstarfsfólks en mun fleiri skráðu sig í hana í fyrstu bylgju faraldursins en nú. Fram hefur komið að ástæðuna megi m.a. rekja til þess að í fyrstu bylgju voru einkareknar lækningastofur lokaðar og því hafi heilbrigðisstarfsfólk á þeim tekið þátt í bakvarðasveitinni.

„Landlæknir er í stöðugu sambandi við Landspítalann um bakvarðasveitina og þörfina fyrir frekari mannafla og menn reyna bara að standa eins vel að því og mögulegt er," segir Þórólfur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×