Danir skoruðu mjög umdeilt mark rétt fyrir lok fyrri hálfleiks í leiknum á móti Íslandi í Þjóðadeildinni á Laugardalsvellinum í kvöld. Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir Danmörku.
Markið var afar klaufalegt en sjónvarpsvélarnar virtust þó sanna það að boltinn hafi aldrei farið allur yfir marklínuna.
Danir fengu þarna sína níundu hornspyrnu í leiknum og eftir að Hannes Þór Halldórsson varði skalla Simon Kjær þá fór boltinn af Rúnari Má Sigurjónssyni og í markið.
Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska landsliðsins, var að sjálfsögðu ekki sáttur með að það hafi verið dæmt mark enda virtist boltinn liggja enn á marklínunni þegar hann kom höndum á hann.
Aðstoðardómarinn var akkúrat hinum megin við Hannes og í 30 metra fjarlægð. Hann átti ekki möguleika á að sjá þetta en dæmdi samt mark. Það er engin marklínutækni eða Varsjá í Þjóðadeildinni.