Fótbolti

Leikmaður Rúmena flýgur í samtals 35 klukkutíma í þessum landsliðsglugga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexandru Mitrita fagnar hér marki fyrir bandaríska MLS-liðið New York City.
Alexandru Mitrita fagnar hér marki fyrir bandaríska MLS-liðið New York City. Getty/Emilee Chinn

Alexandru Mitrita leggur á sig mikil ferðalög til að hjálpa rúmenska landsliðinu að komast á Evrópumótið næsta sumar.

Mitrita er ein þekktasta stjarna rúmenska liðsins en hann er þó ekki að spila í Evrópu. Hinn 25 ára gamli sóknarmiðjumaður spilar með New York City í bandarísku MLS-deildinni.

Rúmenska sambandið tók saman flugferðir Alexandru Mitrita í þessum landsliðsglugga.

Mitrita fór frá Miami 4. október síðastliðinn þar sem hann hafði verið að spila með New York City liðinu. Hann flaug í þrjá tíma frá Miami til New York og svo tók við sjö og hálfs tíma flug til Parísar. Frá París flaug hann síðan til Búkrares og tók það flug þrjá tíma.

Eftir æfingar með rúmenska landsliðinu þá flaug Alexandru Mitrita með rúmenska landsliðinu til Íslands og tók það flug fimm tíma. Hann mun síðan spila á Laugardalsvellinum í kvöld.

Frá Íslandi tekur síðan við þriggja tíma flug til Osló þar sem Rúmenar mæta Norðmönnum í Þjóðadeildinni og svo þriggja tíma flug til Búkarest þar sem lokaleikur gluggans er á móti Austurríki í Þjóðadeildinni. Mitrita flýgur síðan í þrjá tíma frá Búkarest til Amsterdam og loks bíður hans átta tíma flug til New York.

Samtals gera þetta 35 klukkutíma í loftinu og þá á auðvitað eftir að taka saman tímann sem tekur að fara í gegnum flugstöðvarnar sem og til og frá flugvöllunum.

Alexandru Mitrita hefur skorað 2 mörk í 11 landsleikjum og komu þau í leikjum á móti Færeyjum og Noregi á síðasta ári. Hanns spilaði ekki með rúmenska landsliðinu í septemberglugganum.

Mitrita hefur skorað 4 mörk í 14 leikjum með New York City á 2020 tímabilinu og var með 12 mörk í 30 leikjum á því síðasta.

Hér fyrir neðan má sjá myndband með viðtali við Alexandru Mitrita fyrir þá sem skilja rúmenskuna.

Leikur Íslands og Rúmeníu hefst klukkan 18.45 í kvöld en leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport og á Stöð 2. Upphitun hefst á Stöð 2 Sport klukkan 17.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×