Körfubolti

Í þriggja leikja bann fyrir að grípa um kyn­­færi leik­­manns KR

Anton Ingi Leifsson skrifar
Zvonko Buljan er leikmaður Njarðvíkur.
Zvonko Buljan er leikmaður Njarðvíkur. BCM U Pitești

Zvonko Buljan, leikmaður Njarðvíkur í Domino’s deild karla, er á leiðinni í þriggja leikja bann eftir atvik sem átti sér stað í leik KR og Njarðvíkur í 1. umferð deildarinnar.

Zvonko sem var að leika sinn fyrsta alvöru leik fyrir Suðurnesjaliðið greip um kynfæri Roberts Stumbris, leikmanns KR. Dómarar leiksins sáu ekki atvikið en það sást bersýnilega á myndbandsupptökum sem dæmt var eftir.

„Á myndbandsupptökunni sem nefndinni barst má sjá að hinn kærði grípur í kynfæri leikmanns KR og telur nefndin að myndbandið sýni með óyggjandi hætti að brot hafi verið framið sem hefði leitt til brottvísunar hefði dómari séð það,“ sagði í dómnum.

„Að mati nefndarinnar er ljóst að ásetningur stóð til þess af hendi kærða að grípa í kynfæri leikmanns KR. Telur nefndin að slík háttsemi falli undir verknaðarlýsingu d. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar en þar segir m.a. að hafi einstaklingi verið vísað af velli vegna viljandi líkamsmeiðingar eða tilraunar til slíks skuli aga- og úrskurðarnefnd úrskurða viðkomandi í að minnsta kosti þriggja leikja bann.“

Ekki bárust athugasemdir frá Zvonko eða Njarðvík varðandi dóminn en Zvonko skoraði 25 stig í leiknum og tók ellefu fráköst. Hann mun nú missa af þremur leikjum Njarðvíkur. Þeir verða þó ekki á næstunni þar sem körfuboltinn er kominn á ís næstu tvær vikurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×